föstudagur, 23. nóvember 2007

Dauðans Trúður


Þetta er saga sem ég skrifaði fyrir nokkru. Svona eitthvað til að melta þangað til...

Trúður dauðans

“Þetta er eins og kirkjugarður” hugsaði Vasili með sér er hann var keyrður inn ganginn. Þetta var reyndar í fyrsta skipti sem nokkur maður hafði séð ástæðu til að keyra hann nokkuð. Vasili var nefnilega þeirrar gerðar að menn töldu hann geta keyrt sig sjálfan. Hann var því guðslifandifeginn að enginn skildi verða ferðalagsins var, hann átti einhvernveginn ekki heima hér. Líkt og minkur í hænsnabúi eða kommúnisti á Akureyri, hefur trúður ekkert að gera á dauðadeild.
Trúðar eiga að deyja einir, hverfa hljóðlaust af sjónarsviðinu svo fólk geti minnst þeirra með fortíðarglampa í augunum og bros í sálinni. Það myndi lyfta glösum sínum á kránni og skálað fyrir hinum liðna. “Megi ferðalag hans verða gifturíkt” og allir væru þess fullvissir að trúðurinn væri horfinn á vit nýrra ævintýra.
En nú myndi hann nú hrörna fyrir allra augum, hrörna og veslast upp og enginn gæti lengur tengt hann grátinum og hlátrinum, sem hann hafði vakið hjá því gegnum tíðina, heldur myndi það aðeins sjá veikburða gamalmenni heigja vonlausa baráttu við ósýnilegann óvin, veslast upp og deyja og það yrði aldrei hlegið meir.

Vasili var keyrður inn á sjúkrastofuna. Í þessarri kistu myndi hann dvelja síðustu dagana, hversu marga gat læknirinn ekki sagt honum, hann yrði bara að liggja og bíða, liggja og deyja.

Sjúkrafólkið í þessum forljótu sloppum, sem hann hafði óspart notað í atriðum gegnum tíðina, lyfti honum úr börunum, faratækis síðasta ferðalags hans, og yfir í sjúkrarúmið, hinsta hvílustaðinn. Sloppafólkið stakk nálum í hann og tengdi hans alls kyns vélum áður en það hraðaði sér fram til að ferja fleiri lík. Loks var hann einn, einn í líkkistunni sinni, dauðans trúður.

Vasili reis upp við og leit til dyranna sem stóðu í hálfa gátt. Frammi á gangi var sloppafólkið á þönum og enginn veitti honum hina minnstu athygli. Hann var því reyndar feginn, athygli þessa fólks var táknmynd þeirra örlaga sem biðu hans. Hann horfði í kringum sig, þetta herbergi leit út eins og öll viðlíka herbergi í veröldinni gjörvallri. Vasili furðaði sig á því að hafa ekki áttað sig á því fyrr, að umgjörð á spítaladeildum virtust fylgja óskrifuðu lögmáli. Sama hvar hann hafði komið á slíkar deildir litu þær allar eins út.
Sleðjugrænn þunglyndislitur príddi veggina, lítill skenkill stóð við álslegna rúmskörina, lítill gluggi í þeirri hæð að lægi maður í rúminu greindi maður aðeins toppa húsþaka borgarinnar í kring, ekki lífið á götunum heldur þökin sem því skýldu. Beggja vegna gluggans héngu uppi gluggatöld með drapplituðum blómaskreitingum, greinilega hönnuð til þess að lífga aðeins upp á annars dauflega stofuna, gólfið sá hann ekki. Það var ekki aðeins útlit stofunnar sem minnti hann á spítalalögmálið óskráða, og í reynd hafði hann séð sjúkraherbergi sem bjuggu yfir örlitlum frávikum frá litavali þessa herbergis, heldur var það lyktin sem var óumbreytilegast. Sterkust var lyfja og hreinlætislyktin, yfirþyrmandihrein fýla sem lagði allt undir sig. Undir henni lá svo annar þefur, þefur af öllum þeim sem legið höfðu hér áður. Súrmildur þefur af þurrkuðum blómum sem færð höfðu verið fólki sem nú var horfið á braut, þefur af líkamsvessum sem lent höfðu í dýnunni. Og undir allri þessarri lyktarsamsetningu var önnur lykt, svo veik að vart var hægt að greina hana, lyktin af síðusta andvarpi þeirra sem kvatt höfðu heiminn hér, jafnvel í þessu sama rúmi. Þó þessi lykt væri daufust allra lyktanna var það hún sem mest áhrif hafði á Vasili, hann myndi að lokum anda sínu síðasta hér og eftir að kroppurinn hefði verið fjarlægður, þá yrði aðeins þetta andvarp eftir. Eitt andvarp af mörgum, hann myndi enda sem hluti af einhverri ónefndri heild, venjulegfur, óbreyttur. Og svo sofnaði Vasili.

“Mamma, af hverju er maðurinn með rautt nef?” “Suss, ekki trufla manninn, komdu!” ”Nei mamma, af hverju er kallinn með með svona nef, pabbi er ekki með svona nef” “SUSS, KOMDU!” Vasili opnaði augun rétt í því er ljós kollur hvarf útum dyragættina. “Af hverju mamma? Af hverju er kallinn með...” Orð hnokkans hurfu í glyminn sem sífellt barst frá ganginum. Sömu spurningu höfðu hjúkrunarkonurnar borið upp. Þær vildu vita af hverju hann gæti ekki bara tekið niður rauða nefið. Þær reyndu meiraðsegja að hóta honum, sögðu nefið koma í veg fyrir að hægt væri að gefa honum súrefni, en Vasili lét sig ekki. Hann reyndi ekki að útskýra það fyrir þeim, vissi mætavel að það var vonlaust. Hvernig ætti hann að útskýra nauðsyn rauða nefsins fyrir fólki sem aldrei hafði þurft að standa frammi fyrir heilum sal áhorfenda. Hvernig átti það að skilja þá aðstöðu sem hann hefði staðið í dag efti rdag í yfir 40 ár, að gefa af sér til að létta fólki lífið. Hvert kvöld sama sálarstríðið, myndi fólkið hlægja? Myndi það veltast um og yfirgefa salinn með tárin í augunum og gleði í hjartanu? Og fyrst þær gætu ekki skilið þetta hvernig átti það að örla fyrir þeirri tilfinningu að vita að fólkið var ekki að hlægja að honum, það var ekki hann sjálfur sem fólkið var að hlægja að, fólkið var að hlægja að trúðnum. Trúðurinn, ekki hann sjálfur, var það sem gladdi hjörtun. Og þegar allt kemur til alls þá skifti trúðurinn meira máli fyrir heiminn en hann sjálfur, og því varð nefið að vera, varð að vera áfram. Allt til hinstu stundar skildi hann vera einhver, einhver sem skifti máli.
Af öllu því sem Vasili fór í gegnum næstu daga voru reglurnar erfiðastar af öllu. Maður hefði talið að fólk fengi örlítið frelsi síðasta spölinn en vegna þess alvarleika sem lá yfir öllu á dauðadeildinni þá var vistmönnum sniðinn afar þröngur stakkur. Vissulega var þetta allt gert í nafni stöðugleika, rónnar og þagnarinnar sem átti að ríkja hér við hlið heljar, en Vasili vissi hver raunverulega ástæðan var. Fólkið sem starfaði hérna naut þess að hafa vald, vald yfir sjúklingunum, vald yfir lífinu. Þau voru huggendurnir, hrellendurnir, þeim var úthlutað ægisvaldi hliðvarða lífs og dauða. Efalaust var hugsjónin í fyrirrúmi hjá þeim er lagt var af stað, en þegar valdið venst þá er erfitt að sleppa af því höndunum að nýju. Sama á hverju gengur í hinu hversdagslega, dauðlega lífi, töp, sigrar, vanmáttur og ofbeldi, ekkert stóðst þessu snúning, ekkert jafnaðist á við að vinna í forgarði guðanna.

Eins af þessum reglum var að tímatakmörkun liðkunartímanna. Til þess að fólk fengi ekki legusár, eins og það væri þeirra stærsti vandi, þá var ætlast til þess, værirðu á annað boð fær um það, að fólk fengi sér stuttan göngutúr niður ganginn og til baka. Væri maður duglegur næði maður að ganga ganginn fjórum sinnum fram og til baka áður liðkunartíminn liði. En sértu, eins og Vasili í þessu tilviki, reykingamaður, þá máttu teljast heppinn næðiru einum gangagangi áður en bjöllurnar gyllu. Og þannig var Vasili sviftur bæði hreyfingu og þeirri ró sem sígarettan er deyjandi manni. En þessi stutti tími kom einnig í veg fyrir að Vasili næði að koma upp einhverskonar skemmtiatriði, að hann gæti létt samföngum sínum aðeins með litlu klaufaatriði og lyft aðeins þeim skugga sem leggst yfir staði sem þessa, lyft skugganum sem hann fann sækja að hjarta sér. Ekki það, allir á deildinni vissu að hann var trúður, líklega út af nefinu. Þegar hann lagði til við sjúkrafólkið að hann gæti skemmt á deildinni var því umsvifalaust neitað. Það sagði hvorki heilsu hans né hinna sjúklinganna væri greiði gerður með slíku uppistandi. Þegar Vasili þráaðist við var honum tjáð að hlátur ætti ekki við á stofnun sem þessarri, það að hlátur lengdi lífið væri bara hjátrúarlegt húmbúkk og hann ætti að leyfa sér að njóta síðustu dagana sem hann sjálfur. Gæti hann ekki til dæmis hleypt börnunum sínum inn til sín, þau hefðu spurt um hann daglega. Það væri mun heilsusamlegra en eitthvað barnalegt tilstand. Vasili lagðist aftur á dánarbeðið.

Hann gat ekki fyrir nokkurn mun séð börnin sín aftur. Hann hefði alltaf verið sá sem gladdi þau og skemmti á löngum nóttum. Hann hefði ekki rétt til þess að svifta þau þeim föður, skifta honum út fyrir deyjandi gamalmenni. Hann, eins og hann var, væri besta minningin sem hann gæti skilið eftir handa þeim. Hann myndi aldrei gleyma brosunum í litlu, tárvotu andlitunum þeirra er þau grófu bróður sinn. Hvernig hann lék fyrir þau guðinn sem tók á móti honum. Þau hefðu jafnvel trúað því þá, að bróðir þeirra væri í gleðilandi. Allaveganna gætu þau gripið í þá sýn er sárið opnaðist og sorgin streymdi fram. Hann hefði engan rétt til að svifta þau þessum sýndarveruleika, hann er oft það eina sem eftir er, þegar öllu er á botninn hvolt. En Vasili vissi að slopparóbotin höfðu rangt fyrir sér með reglunum sínum, hlátur og gleði lengdu kannski ekki lífið, en þau gerðu þann tíma sem eftir var bærilegri, jafnvel gleðilegan. En reglunum skildi fylgja, sama hvað tautaði og raulaði og að lokum var sú ákvörðun tekin að setja engan á stofu með Vasili, hann skildi vera einn ef hann vildi endilega þráast við með trúðaskapinn.

Dagar liðu, nætur liðu og sjúkdómurinn virtist sitja um Vasili eins og óvinur sem situr um borg. Lætur íbúana svelta í hel í stað þess að riðjast inn og ljúka verkinu. Vasili sjálfur var á báðum áttum hvort hann ætti að blása til sóknar, senda liðið af stað til þess að ljúka verkinu eða sitja aðgerðalaus og sjá hvernig færi. Annars vegar bjó í honum löngun til að ljúka þessu af, leggjast niður, gefast upp og fljóta á móts við son sinn. Hinsvegar er lífið þrjóskt. Í heimi réttlætinganna, leiðans, rútínunnar, gleðisnauðarinnar, ilgangsleysisins og dimmunnar mátti alltaf greina glætubrot. Einhvern vísi að lífsvilja, heimsþrá. Tálsýn ólokinna verka. Sama hvernig viljanum var beitt, hversu þunglyndið var myrkt eða vonleysið algert þá fann ljósið alltaf leið til þess að skína, vekja vonina að nýju og því hélt umsátrið áfram.

Mánuðir liðu og börnin hans Vasili voru búin að gefast upp á að fá að hitta hann. Þau urðu að láta sér bréfin duga, bréfin sem bárust alltaf á þriðjudögum með morgunpóstinum. Hvert og eitt þeirra skrifað sömu taktföstu hendi og jafnfull gleðilegra tilvísanna til vistarinnar á Glóinbrekku, ævintýralandsins handan vígstöðvanna. Landinu þar sem pabbi þeirra hafði tekið sér bólfestu. Aldrei neinar útskýringar aðeins óskhyggja og von, hann kæmi fljótt aftur, bjartari en nokkru sinni fyrr og yrði þá með þeim að nýju. Meðan þau biðu myndi hann segja þeim frá öllum furðuverunum sem á vegi hans urðu í Glóinbrekku. Fram úr bréfunum spruttu Galadýrin, ljósverur með gyllta vængi sem gengu um og lífguðu við hina huguðu Sovola sem héldu aftur af myrkraöflunum er sóttu að Glóinbrekku. Hann sagði þeim frá Kólununum, hálfununum, síðdvergunum og ljósflaumunum. Myndirnar voru svo sterkar og vonin svo sterk að börnin gátu aðeins svarað honum með brosandi grátandlitum. Svo einn daginn bættist ný vera í samfélagið í Glóinbrekku. Galadýranna komu fljúgandi útúr myrkrinu og báru með sér litla ljósveru. Litla, fallega, sofandi ljósveru. Ljósverunni fyldi vonarkyndill sem blikaði eins og stjarna í nóttinni, vonarkyndillinn gæddur þeirri náttúru að geta sent ljós hvert sem var, jafnvel inní sálir þeirra sem myrkrið hafði gleypt. Það eina sem kyndillinn þarfnaðist til þess að geta sent ljósið sitt var gleði, og það var þjónusta sem Vasili gat fært af hendi, varð að fá að gera. Þegar allt var orðið kyrrt í Glóinbrekku og allir íbúarnir lagstir til hvílu þá læddist Vasili að ljósverunni, sem alltaf svaf, og gladdi hana, gladdi hann ósegjanlega og nærði þar með kyndilinn. Í staðinn hvíslaði kyndilinn sefjunarorðum í eyra Vasili og því meira sem Vasili gladdi ljósveruna sofandi því mun sáttari varð hann. Loks var kyndillin svo bjartur að ljósveran rankaði við sér af svefninum langa og Vasili gekk sáttur til hvílu. Og svo hættu bréfin að berast. Eins viku og svo aðra biðu börnin eftir bréfinu sem aldrei kom. Þau urðu loks svo óróleg að þau afráðu að fara í heimsókn. Þau klæddu sig upp í sitt fínast púss og héldu af stað til spítalans. Þegar þar var komið létu þau engan vita af komu sinni heldur læddust rakleitt að stofunni hans Vasili og gengu inn. Þau horfðu í kringum sig, inni var umhorfis eins og í öllum sjúkrastofum veraldarinnar. Þokugrænir veggir, skenkill, álrúm og lítill gluggi í þeirri hæð að lægi maður í rúminu sæjust þök húsanna, ekki lífið sem þau skýldu og blómaskreittar gardýnur, eflaust til að létta andrúmsloftið. Í rúminu gægðist undan koddunum lítil ljósvera, lítil, ljóshærð, fögur stúlka og í gegnum grátbólgin brosin greindu börnin hans Vasili að á andliti hennar miðju var búið að koma fyrir litlu rauðu trúðsnefi.


Berlín 23.11.07
Þorleifur

Hér kemur inn skáldskapur

Og hér vonandi líka